top of page
Search

Þrefaldur sigur hjá Gerdu á Meistaramóti BH og RSL

Meistaramót BH og RSL 2024 fór fram helgina 15.-17.nóvember og var spilað í glæsilegri umgjörð í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Mótið er hluti af mótaröð Badmintonsambands Íslands og tók flest af besta badmintonfólki landsins þátt. BH-ingurinn og Íslandsmeistarinn Gerda Voitechovskaja sigraði þrefalt í úrvalsdeil annað árið í röð. BH-ingar náðu fínum árangri á mótinu og sigruðu í 8 af 15 greinum.


Keppt var í þremur deildum á mótinu, Úrvals, 1. og 2.deild fullorðinna, og voru skráðir keppendur 98 talsins. Flestir þátttakendur komu frá BH en þeir voru 41. Frá TBR voru 31 skráðir, 9 frá Aftureldingu, 5 frá ÍA og KR, 2 frá TBS, Hamar og Samherjum og 1 frá Tindastól. Mótið er næst fjölmennasta fullorðinsmót ársins á eftir Meistaramóti Íslands.


Gerda þreföld í úrvalsdeild


Í úrvalsdeild var eins og áður sagði Gerda Voitechovskaja sigursælust. Hún sigraði í einliðaleik kvenna, tvíliðaleik kvenna með Unu Hrund Örvar sem einnig er í BH og í tvenndarleik með Davíð Bjarna Björnssyni úr TBR. Í einliðaleik karla sigraði Gústav Nilsson, TBR og í tvíliðaleik karla Daníel Jóhannesson og Róbert Þór Henn, TBR.


BH-ingar bestir í 1. deild


BH-ingar voru mjög sigursælir í 1. deild og sigruðu allar greinar nema eina. Sebastian Vignisson og Natalía Ósk Óðinsdóttir sigruðu í tvenndarleik. Guðmundur Adam Gígja sigraði í einliðaleik karla og Jón Sverrir Árnason og Stefán Logi Friðriksson í tvíliðaleik karla. Tvíliðaleik kvenna sigruðu Halla María Gústafsdóttir og Katrín Vala Einarsdóttir. Emma Katrín Helgadóttir úr Tindastól sigraði í einliðaleik kvenna.


KR-ingar sigursælastir í 2. deild


Í 2. deild voru KR-ingar sigursælastir. Birna Sól Björnsdóttir, KR, sigraði þrefalt í flokknum, í einliðaleik, tvíliðaleik kvenna með Heru Nguyen, KR, og tvenndarleik með Han Van Nguyen, KR. BH-ingarnir Freyr Víkingur Einarsson og Þorleifur Fúsi Guðmundsson sigruðu í tvíliðaleik karla og TBR-ingurinn Brynjar Petersen í einliðaleik karla.


Verðlaunahafar í öllum flokkum fengu glæsileg verðlaun frá RSL á Íslandi en einnig gáfu H-verslun, Ormsson og heildsalan Hr. Jón frábær verðlaun.


Smelltu hér til að skoða nánari úrslit.


65 ára afmælishappdrætti BH


Í tilefni af 65 ára afmæli BH í haust var boðið uppá happdrætti alla þrjá mótsdagana. Þau sem mættu í hús gátu skráð sig á lista í sjoppunni og unnið glæsileg verðlaun frá samstarfsaðilum BH. Mikil ánægja var með þetta og fóru 23 heppnir heim með verðlaun. Þökkum öllum sem gáfu verðlaun í happdrættið kærlega fyrir en það voru RSL á Íslandi, Nailberry á Íslandi, Skylagoon Iceland, Flyover Iceland, Gallerí Trégaur, Dekra, Elsa Nielsen listakona og H-verslun.


Myndir


Myndir af verðlaunahöfum mótsins má finna hér á Facebook. Ljósmyndari BH, Kristján Pétur Hilmarsson, tók einnig mikið af myndum af keppendum sem eru væntanlegar á Facebook á næstu dögum.


Þakkir


Mótið var spilað á keppnismottum BH í beinni útsendingu á Youtube. BH-ingurinn Róbert Ingi Huldarsson hafði veg og vanda af útsendingunni og úrslitaþjónustunni tengdri henni sem hann forritaði sjálfur og er á heimsmælikvarða. Virkilega vel gert hjá Róberti. Um 40 BH-ingar aðstoðuðu við undirbúning, framkvæmd og frágang að móti loknu en án þessa öfluga hóps væri ekki hægt að halda stórmót eins og þetta.


Þökkum leikmönnum, þjálfurum, áhorfendum, starfsfólki, samstarfsaðilum, dómurum, teljurum og öðrum sjálfboðaliðum kærlega fyrir frábæra helgi.


Gerda Voitechovskaja, BH, sigraði þrefalt á Meistaramóti BH og RSL 2024. Ljósmyndari Kristján Pétur Hilmarsson.
Gerda Voitechovskaja, BH, sigraði þrefalt á Meistaramóti BH og RSL 2024. Ljósmyndari Kristján Pétur Hilmarsson.

Comments


bottom of page