Um helgina fór Meistaramót BH og RSL fram í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Mótið er hluti af Hleðslubikar Badmintonsambands Íslands og gefur stig á styrkleikalista sambandins. Flest af besta badmintonfólki landsins tók þátt, samtals 84 keppendur og þar af 33 BH-ingar. Öllu var tjaldað til í Strandgötunni í tilefni mótsins, keppnismottur lagðar á gólfið, stigin sýnd á stórum Samsung skjám við hvern völl og boðið uppá streymi á Youtube þar sem áhorfendabann er á íþróttakeppnum þessa dagana. Margir skemmtilegir og jafnir leikir voru spilaðir um helgina og greinilegt að badmintonfólk er að njóta þess vel að fá að byrja að keppa aftur af fullum krafti.
Meistaraflokkur
Í meistaraflokki voru þau Sigríður Árnadóttir og Daníel Jóhannesson úr TBR sigursælust en þau sigruðu bæði tvöfalt, saman í tvenndarleik og auk þess Daníel í einliðaleik og Sigríður í tvíliðaleik með Þórunni Eylands. Í tvíliðaleik karla sigruðu Kristófer Darri Finnsson og Davíð Bjarni Björnsson úr TBR. Í einliðaleik kvenna sigraði BH-ingurinn Gerda Voitechovskaja en hún var einnig í öðru sæti í tvíliðaleik með Sólrúnu Önnu Ingvarsdóttur úr BH. Una Hrund Örvar úr BH var í öðru sæti í tvenndarleik með Kristófer Darra Finnsyni úr TBR. BH átti 9 af þeim 36 keppendum sem tóku þátt í meistaraflokki og hafa aldrei verið fleiri í sögunni.
A flokkur
BH-ingar voru sigursælir og fjölmennir í A-flokknum, unnu 10 af þeim 16 verðlaunum sem í boði voru. Natalía Ósk Óðinsdóttir sigraði í einliðaleik kvenna en Margrét Dís Stefánsdóttir úr UMFA var í öðru sæti. Í einliðaleik karla sigraði Eiríkur Tumi Briem og í öðru sæti var Jón Sigurðsson en þeir eru báðir í TBR. Í tvíliðaleik kvenna sigruðu Anna Lilja Sigurðardóttir og Elín Ósk Traustadóttir úr BH en í öðru sæti voru Brynja Kolbrún Pétursdóttir og María Rún Ellertsdóttir frá ÍA. Í tvíliðaleik karla var hreinn BH úrslitaleikur þar sem Orri Örn Árnason og Valgeir Magnússon sigruðu Kristian Óskar Sveinbjörnsson og Gabríel Inga Helgason. Í tvenndarleik sigruðu BH-ingarnir Anna Lilja Sigurðardóttir og Borgar Ævar Axelsson en í öðru sæti voru María Rún Ellertsdóttir, ÍA, og Kristian Óskar Sveinbjörnsson, BH.
B flokkur
Í B-flokki voru BH-ingar einnig sigursælir, unnu 12 af þeim 16 verðlaunum sem í boði voru. Halla Stella Sveinbjörnsdóttir náði þeim frábæra árangri að sigra þrefalt í B-flokknum. Í tvíliðaleik spilaði hún með Lilju Berglindi Harðardóttur úr BH og með Mána Berg Ellertssyni úr ÍA í tvenndarleik. Í öðru sæti í einliðaleik kvenna í B-flokki á eftir Höllu Stellu var Sara Bergdís Albertsdóttir úr BH. Í öðru sæti í tvíliðaleik kvenna voru BH-ingarnir Erla Rós Heiðarsdóttir og Sigríður Theódóra Eiríksdóttir. Stefán Steinar Guðlaugsson úr BH sigraði í einliðaleik karla og Ari Þórðarson úr KA var í öðru sæti. Í tvíliðaleik karla sigruðu Haukur Þórðarson og Gunnar Örn Ingólfsson úr TBR en í öðru sæti voru Stefán Steinar Guðlaugsson og Emil Lorange Ákason úr BH. Stefán Steinar var einnig í öðru sæti í tvenndarleik með Margréti Hu úr Hamri í Hveragerði.
Glæsileg verðlaun
Það er hefð fyrir því á Meistaramóti BH að veita óhefðbundin verðlaun þ.e. ekki verðlaunapeninga eða bikara. Í ár var engin undantekning og líklega hefur verðlaunaborðið aldrei verið eins glæsilegt og nú. Á meðal verðlauna voru spaðar, fatnaður og fylgihlutir frá RSL, gisting og þriggja rétta kvöldverður á Hótel Örk, pizzasteinar frá Fígaró náttúrusteinum, gjafabréf í Flyover Iceland og Skautahöllina í Laugardal, hárvörur frá Joico, svalandi drykkir frá SlowCow, gisting á Hótel Selfoss, Timberland stuttermabolur, snyrtivörur frá ChitoCare beauty, út að borða á veitingahúsið Krydd í Hafnarfirði og Grillhúsið, nuddbolta frá Dekra og gjafabréf í viðtalstíma hjá Afrek íþróttasálfræðiþjónustu. Við þökkum okkar frábæru samstarfsaðilum fyrir þessi glæsilegu verðlaun sem sigurvegarar mótsins voru himinlifandi með.
Bein útsending
Þegar áhorfendabann er á íþróttakeppnum er mikilvægt að geta boðið uppá góða úrslitaþjónustu og streymi fyrir aðstandendur og aðra áhugasama sem sitja heima. BH-ingurinn Róbert Ingi Huldarsson og félagi hans bjuggu til einstakt kerfi fyrir um tveimur árum síðan, livepoints.net, sem er í stöðugri þróun og nýttist svo sannarlega vel í áhorfendabanninu um helgina. Með kerfinu var hægt að sýna stöðuna í hverjum leik á skjá í húsinu en einnig var hægt að fylgjast með stöðunni á vefnum. Þá var stöðunni í hverjum leik einnig varpað á streymi frá mótinu á Youtube sem er þjónusta sem líklega aldrei áður hefur verið veitt á badmintonmóti á Íslandi fyrir utan úrslitaleiki sem hafa verið í beinni útsendingu í sjónvarpi. Streymt var á Youtuberás BH frá þremur völlum á föstudag, fjórum á laugardag og fimm á sunnudag og átti Róbert Ingi einnig heiðurinn af því. Frábærlega gert hjá Róberti sem við erum svo heppin að hafa í okkar góða liði.
Þakkir
Þökkum öllum keppendum fyrir þátttökuna, dómurum, teljurum og mótsstjórn fyrir þeirra framlag. Sérstakar þakkir fá allir þeir sem aðstoðuðu við að safna verðlaunum, setja upp keppnisgólfið og umgjörðina alla og ganga frá að móti loknu, án svona öflugs hóps væri ekki hægt að halda svona glæsilegt mót.
Öll úrslit má finna á tournamentsoftware.com og myndir á Facebook.
Commenti