Alþjóðlega badmintonmótið RSL Iceland International 2023 sem er hluti af Reykjavik International Games fór fram í TBR húsunum 26.-29.janúar. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og gefur stig á heimslista. Metfjöldi þátttakenda var skráður til keppni í ár, 291 frá 40 löndum. 30 Íslendingar komust inn í mótið, þar af 12 BH-ingar.
Okkar fólki gekk mjög vel í keppninni og náðu öll að vera nálægt sínu besta spili sem er mjög ánægjulegt á svona sterku móti.
Sólrún Anna Ingvarsdóttir komst lengst allra Íslendinga í mótinu í einliðaleik en hún sigraði báða andstæðinga sína í undankeppni mótsins og komst inn í aðal keppnina. Í aðal keppninni var hún ekki langt frá sigri í fyrstu umferð en tapaði 21-19 og 21-19 í hörku leik gegn leikmanni frá Moldavíu.
Fjögur íslensk pör komust í 16-liða úrslit í tvíliðaleik á mótinu, tvö frá BH. Una Hrund Örvar og Sólrún Anna Ingvarsdóttir komust beint inn í aðal mótið í tvíliðaleik kvenna og sigruðu í fyrstu umferð par frá Eistlandi í hörku þriggja lotu leik. Í 16 liða úrslitum biðu þær lægri hlut fyrir pari frá Azerbajan. Gabríel Ingi Helgason og Róbert Þór Henn unnu einnig andstæðinga sína sem voru frá Írlandi í fyrstu umferð í tvíliðaleik karla. Í 16 liða úrslitum háðu þeir hörku baráttu við úkraínskt par og og þurftu að játa sig sigraða að lokum.
Í tvenndarleiknum náðu þau Rakel Rut Kristjánsdóttir og Guðmundur Adam Gígja að sigra einn leik í undankeppninni og háðu harða og góða baráttu í þeim seinni.
Aðrir BH-ingar náðu ekki að sigra sína leiki en spiluðu þó hörku flottar viðureignir og við erum svo sannarlega stolt af árangri okkar fólks. Nánari úrslit má finna hér á tournamentsoftware.com.
BH-ingar voru einnig til fyrirmyndar hvað varðar aðstoð við framkvæmd mótsins s.s. dómgæslu, línuvörslu o.fl. sem er ekki síður mikilvægt. Vel gert!
Comments