top of page
Search

Fjölmennt á námskeiðum sumarsins

Sumarnámskeið BH 2024 voru vel sótt líkt og undanfarin ár. Í heildina voru 208 börn skráð sem er nánast sami fjöldi og í fyrra þegar var metskráning með 211 skráningum. Því miður komust færri að en vildu sumar vikurnar en aðstaða og mannafli gerir það að verkum að ekki er hægt að fjölga meira.


Í boði voru fimm viku löng námskeið þar sem þátttakendur mættu í 3-7 klst á dag. Fyrir hádegi var badminton fyrir byrjendur og styttra komna og eftir hádegi var badminton fyrir keppniskrakka og borðtennis fyrir byrjendur og styttra komna. En ekki var einungis farið í badminton og borðtennis á námskeiðunum, útivist og ýmsir leikir og þrautir voru einnig á dagskrá ásamt því að farið var í sund einu sinni í hverri viku eftir hádegi.


Þjálfarar í sumar voru Una Hrund Örvar, badmintonþjálfari, Sólrún Anna Ingvarsdóttir, íþróttafræðinemi og badmintonþjálfari, og Anna Lilja Sigurðardóttir, íþróttafræðingur og badmintonþjálfari. Þeim til aðstoðar voru ungmenni sem æfa badminton og borðtennis hjá félaginu: Alexander Chavdarov, Angela Líf, Baldur Freyr, Dagur Örn, Elín Helga, Katla Sól og Þórdís María.


Allir fengu ávexti í stuttu hléi fyrir og eftir hádegi og léttan hádegismat ef um heilsdags námskeið var að ræða. Á föstudögum voru grillaðar pylsur í hádeginu fyrir alla þátttakendur. Starfsfólk BH í íþróttahúsinu þau Böðvar, Otta og Þórunn sáu um matinn og voru foreldrar mjög þakklátir að þurfa ekki að senda börnin með nesti.


BH þakkar öllum þeim sem komu að sumarnámskeiðunum þetta árið fyrir sitt framlag og Hafnarfjarðarbæ fyrir stuðninginn. Námskeiðin eru góð þjónusta við foreldra sem þurfa að finna verkefni fyrir börn sín í sumarfríinu, fín kynning fyrir félagið og frábær þjónusta við iðkendur sem vilja halda sér við í sumarfríinu.



Það var vinsælt að hoppa á steinunum í læknum í sumar
Það var vinsælt að hoppa á steinunum í læknum í sumar



Comments


bottom of page