Þau Sól Kristínardóttir Mixa og Magnús Gauti Úlfarsson eru borðtennisfólk BH 2024.
Sól Kristínardóttir Mixa náði besta árangri 2024 sem nokkur borðtenniskona úr Hafnarfirði hefur náð. Hún varð Íslandsmeistari í einliðaleik kvenna og Íslandsmeistari í tvíliðaleik kvenna ásamt Aldísi Rún Lárusdóttur úr KR. Sól var fyrirliði tveggja liða, liðs BH sem varð bikarmeistari og liðs BH í efstu deild kvenna þar sem BH varð deildarmeistari í fyrsta sinn í sögunni og rauf 34 ára sigurgöngu Víkings og KR. Sá árangur sem Sól hefur náð á þessu ári er slíkur að leita þarf áratugi aftur í tímann til að finna jafnoka hennar, ef það er yfir höfuð mögulegt að finna
slíkan árangur í borðtennissögu Íslands. Sól lauk einnig síðasta keppnistímabilinu sínu í unglingaflokkum á árinu þar sem hún vann alla Íslandsmeistaratitla sem hægt er að vinna: einliðaleik, tvíliðaleik, tvenndarleik og liðakeppni í flokki u19 ára. Sól hlaut auk þess silfurverðlaun í tvenndarleik á Íslandsmótinu ásamt Magnúsi Gauta Úlfarssyni úr BH. Ásamt því að spila á Íslandi er Sól samningsbundin sænska 1. deildarliðinu Åstorp BTK og er fastakona í landsliði Íslands. Hún var valin borðtenniskona ársins 2024 af Borðtennissambandi Íslands.
Magnús Gauti Úlfarsson vann silfurverðlaun í öllum þremur keppnisgreinunum á Íslandsmótinu í ár, einliðaleik, tvíliðaleik ásamt Birgi Ívarssyni úr BH og tvenndarleik ásamt Sól Kristínardóttur Mixa úr BH. Magnús Gauti var í liði BH sem sigraði í bikarkeppninni í meistaraflokki.
Commentaires