Dagana 27.-30.september fóru 16 leikmenn frá BH ásamt Kjartani þjálfara og Önnu Lilju fararstjóra til Kaupmannahafnar að keppa. 14 leikmenn frá BH kepptu á RSL Valby open sem er fullorðinsmót í A, B, C og D flokkum og 2 á KBK U17-U19M mótinu. Mótin hentuðu okkar fólki vel getulega séð og fengu allir einhverja jafna og skemmtilega leiki.
Tíu verðlaun komu í hlut okkar fólks á RSL Valby open. Rakel Rut og Guðmundur Adam voru í 2.sæti í tvenndarleik í A flokki en Rakel var einnig í öðru sæti í tvíliðaleik kvenna í A flokki ásamt Natalíu Ósk. Steinþór Emil og Natalía Ósk sigruðu tvenndarleikinn í B flokki og Stefán Logi og Lena Rut voru í 2.sæti. Þá voru þær Snædís Sól og Þórdís María í 2.sæti í tvíliðaleik kvenna í C flokki. Í verðlaun á mótinu voru gjafabréf frá RSL í Danmörku. Nánari úrslit frá mótinu í Valby má finna hér.
BH stelpurnar, Katla Sól og Hrafnhildur Edda, sem keppt á KBK mótinu unnu ekki til verðlauna. Þær fengu þó marga góða leiki og unnu einn leik í öllum greinum. Nánari úrslit KBK mótsins má finna hér.
Gist var á Danhostel Copenhagen City í miðborginni sem var frábær staðsetning til að hægt væri að njóta Kaupmannahafnar milli æfinga og keppni. Á föstudag fór hluti af hópnum á æfingu í Drive með færeyskum leikmönnum og hluti í KBK með dönskum leikmönnum. Keppt var bæði laugardag og sunnudag og svo haldið heim á leið á mánudag.
Á Facebooksíðu BH má finna myndir frá ferðinni og einnig í "story" á BH Instagram.
Comments